Fróðleikur um flug

Flugmolar

Geirfugl fagnar 20 ára afmæli

Geirfugl fagnar nú 20 ára afmæli sínu en félagið var stofnað formlega árið 1997.  Félagið hefur þroskast hratt og er í dag hornsteinn almannaflugs á Íslandi sem stærsti flugklúbburinn. Félagsmenn eru 178 talsins og skipta flugnemar hundruðum sem ýmist hafa lokið námi eða stunda nám hjá félaginu.

Flugfloti félagsins hefur þróast í takt við tímann og er nútímalegur og tæknilegur í bland við hefðbundnar vélar. Við eigum fjölbreyttan og vandaðan flota véla sem valdar eru með það fyrir augum að auka möguleika félagsmanna og flugnema þegar kemur að því að stunda almannaflug eins hagkvæmt og kostur er. Þá hefur Geirfugl alla tíð staðið í stafni þegar kemur að tækniþróun og hefur félagið rekið eigið hugbúnaðarkerfi sem heldur utan um alla starfsemi félagsins.

Öryggi er lykilatriði í öllum rekstri félagsins og er vandað til verks allt frá viðhaldi til samtala við flugmenn sem eru að leggja í langferð. Reynslumiklir flugmenn eru í félaginu, kennarar standa vaktina á vellinum alla daga og framkvæmdastjóri fylgist vel með flotanum. Þessi góða blanda hefur skilað 20 farsælum árum þar sem allir Geirfuglar hafa komið heilir heim og hlakkað til næsta flugs.

Stjórn félagsins þakkar öllum þeim sem komið hafa að starfseminni í gegnum árin um leið og við horfum björtum augum til framtíðar.

Friðbjörn Orri Ketilsson
Formaður stjórnar.