Geirfugl

Fróðleikur um flug

Flugmolar

Rétt hegðun á malarbrautum

 

Malarbrautir eru víða utan við þéttbýli og mikilvægt að flugmenn þekki og kunni að hegða sér á slíkum brautum. Auðvelt er að valda verulegum skemmdum á flugvélum ef ranglega er farið að á malarbrautum. Stærsta ógnin er grjót og möl á brautum sem loftskrúfan sogar upp þegar hreyflinum er gefið afl. Grjót kastast því í skrúfuna, vængi, stél og skrokk og veldur verulegum skemmdum.

Möl er mjög algeng hér og þar við grasbrautir, utan við akbrautir á malbiki og á flugvélastæðum. Það sem á eftir fer á því víða við en bara á malarbrautum.

Undirbúningur

Frumskilyrði er að vélin sé samþykkt á möl. Það kemur fram í handbók vélarinnar og í reglum eigenda. Flugvélar Geirfugls eru háðar sérstökum reglum um lendingar á möl sem flugmenn þurfa að kynna sér fyrir flug og finna má á upplýsingasíðu um hverja vél.

Þá skal haft í huga að stélhjólsvélar henta betur en nefhjólsvélar á malarbrautir þar sem loftskrúfa er hærra yfir braut en á nefhjólsvélum.  Ef ætlunin er að lenda oft á ári á malarbrautum þá er mögulega hentugra að vera með stélhjólsréttindi.

Lending

Þegar lent er á malarbraut skiptir máli að undirbúa lendingu vel, lenda á réttum stað á brautinni og hafa lengd hennar og lendingarvegalengd vélarinnar miðað við afköst á hreinu. Þá þarf að gæta að því að vélin rásar frekar og rennur meira til á möl en á malbiki. Því skiptir miklu að flugmaður haldi réttri stefnu eftir að vélin snertir brautina og beiti stýrum rétt miðað við mjúkbrautartækni og hliðarvind. Flugmaður skal viðbúinn því að holur, ójöfnur eða annað hafi áhrif á stefnu í lendingarbruni. Halda skal stýrum aftur eftir snertingu við braut til að hlífa loftskrúfu sem mest. Beita skal bremsum varlega til að forðast að draga dekkin á mölinni og því getur lendingarvegalengd verið talsvert meiri en á malbiki.

Akstur

Að lendingu lokinni hefst akstur. Þetta er vandasamasti hluti flugs á malarbrautum. Gæta þarf allra mest að því að gefa hreyfli aldrei mikið afl á brautinni. Um leið og það er gert sogar loftskrúfa upp grjót og fleygir í skrúfu, skrokk, vængi og stél með tilheyrandi skemmdum. Alltaf skal gefa hreyfli eins lítið afl og mögulegt er í akstri á malarbraut. Ef vélin stöðvast í holu, hjólfari eða einhverju sem veldur því að lágmarksafl dugir ekki skal drepið á hreyfli og vélin færð upp á betra svæði með handafli.  Helsta ástæðan fyrir þessu er sú að ef það er ekki gert eru töluverðar líkur á að loftskrúfan skemmist það mikið að flugvélin verði óflughæf.  Þá kemstu ekki aftur í loftið og hvað þá?

Uppkeyrsla

Aldrei skal keyra upp hreyfil á malarbraut. Verði þess við komið með öruggum hætti skal keyra upp á malbiki eða grasi við brautina. Ef keyrt er upp á malarbraut mun mikið grjótmagn og sandur sogast upp í loftskrúfu og valda skemmdum á skrúfu, vængjum, skrokk og stéli.

Flugtak

Hreyfilnotkun í flugtaki á malarbrautum er sérstaklega mikilvæg. Á malbiki eru flugmenn vanir því að gefa næstum strax fullt afl í flugtaki. Á möl þarf að gefa hreyflinum afl hægt og rólega og leyfa vélinni að renna af stað áður en fullt afl er gefið. Þetta er gert til að lágmarka uppsog grjóts af brautinni.  Það er oft gott að nota mjúkbrautartækni við þessi skilyrði.

Í flugtaki skiptir miklu máli að nýta alla mögulega lengd brautar.  Fátt er verðmætara en flugbraut framundan ef hreyfill gefur sig í flugtaki og því lykilatriði að nýta alla brautina. Þá getur yfirborð reynst öðruvísi en ráðgert var sem veldur því að hröðun er minni en til stóð og þá er aftur mjög mikilvægt að eiga sem mest eftir af brautinni.

Ef brautin er laus í sér eða ójöfn getur yfirborð hennar hægt á brautarbruni og skal þá gert ráð fyrir aukinni flugtaksvegalengd. Fara skal eftir handbók vélarinnar við þessar aðstæður. Gæta skal að því að halda réttri stefnu í flugtaki þar sem vélin rásar meira á yfirborðinu en á malbiki. Ef brautin er ójöfn skal flugmaður vera viðbúin því að vélin lyftist lauslega í bruni áður en flugtakshraða er náð og gæta þess að fara ekki í loftið of snemma heldur klára flugtaksbrun uns réttum hraða er náð til flugtaks.

Aldrei skal fara í hópflugtak á malarbrautum þar sem vélin fyrir framan mun róta upp grjóti með loftskrúfu og dekkjum sem kastast í vélar fyrir aftan með tilheyrandi skemmdum.

Kostir malarbrauta

Ódýrt er að leggja malarbraut fyrir minni flugvélar þar sem efni og framkvæmd kosta mun minna en við hefðbundnar malbiks- eða grasbrautir. Ef undirlag er gott frá náttúrunnar hendi dugir að slétta brautina vel og fjarlægja grjót svo hún sé tilbúin til notkunar. Viðhald malarbrauta er einnig ódýrt þar sem einfalt er að laga holur og skemmdir.

Ókostir malarbrauta

Styrkur brautanna getur verið breytilegur eftir því hvernig undirlag hefur veðrast. Hafi braut ekki verið sinnt lengi er hætta á að holrými, vatnsfarvegir eða tilfærsla jarðvegs geti valdið holum eða rásum í brautinni sem illa sjást úr lofti.  Flugvél sem lendir við þau skilyrði getur fests auðveldlega og valdið verulegum skemmdum á loftskrúfu og hjólabúnaði t.d. 

Ólíkt ástand

Hér má sjá myndir af nokkrum malarbrautum á Íslandi. Athygli vekur eftir hversu fjölbreytt yfirborð þeirra er. Sumar eru góðar en aðrar mjög slæmar. Miklu skiptir að kanna vel aðstæður áður en lent er á malarbrautum. Hægt er að hafa samband við umsjónarmenn brauta, fljúga lágt yfir braut fyrir lendingu og kynna sér upplýsingar um skráðar brautir í Flugmálahandbók.