Fróðleikur um flug

Flugmolar

Meðferð hreyfils í frosti

 

Undirbúningur fyrir start í frosti felst meðal annars í því að hita mótorinn ef hitari er fyrir hendi. Einnig eru olíur flugvélahreyfla mun þykkari en bílvélaolíur. Þannig verður startið "þungt" í frosti vegna seigju olíunnar. Reyndar á þetta ekki að há okkur mikið vegna fjölþykktarolíu. Þetta fer illa með mótorinn og reynir mikið á startara og tekur hressilega í rafgeyminn. Undir –5 °C er nauðsynlegt að hita mótorinn til að eiga ekki á hættu að hreinlega skemma hann, og þá skiptir fjölþykktarolía engu máli. Hitinn er aðalmálið.

Án hitunar í frosti geta eftirfarandi skemmdir orðið:

  1. Strokkar geta skorist (sem skemmir út frá sér)
  2. Stimpilhringir geta brotnað
  3. Stimplar geta rispast 

Hárþurrkur og þess háttar hitarar geta gert kraftaverk til að lengja líf mótora og vil ég hvetja menn til að hugsa um þessi mál. Best er að jafna hitunina, ofan og neðan til að svipað hitastig sé á öllum mótornum. Hafðu mótorhlífina lokaða og blástu hitanum inn til skiptis að framan og undir. Gættu þess bara að beina ekki hitablæstrinum á plast/gúmmí/eldsneytislagnir/timbur. Ef þú getur skaltu líka hita rafgeyminn. Ef það er frost, skaltu gefa þér meiri tíma fyrir flugið og mundu að þú ert með dýran hlut í höndunum. Ef hiti er ekki fyrir hendi skaltu gefa vélinni þá forgjöf sem segir í handbók, fara svo út og snúa spaðanum í a.m.k. 8 heila hringi.

Þannig dreifist olían og segja má að þú "forsmyrjir" mótorinn með þessu. Einnig dreifist eldsneytið vel og bensíngufan verður góð fyrir startið. Þetta hef ég reynt oft og það reyndist mjög vel. Það er ótrúlegt hvað nokkrir snúningar gera fyrir start.

Mundu, að sem flugmaður ert þú með dýran hlut í höndunum sem heldur verðgildi sínu í samræmi við meðferðina. Farðu vel með mótorinn og þá fer hann vel með þig!