Geirfugl

Saga

Saga félagsins

      Fyrsta vél félagsins var "Borinn" sem er af gerðinni Piper PA-22-160 Tri-Pacer.  Hún var framleidd árið 1959.

 
 

Sagan

Flugfélagið Geirfugl ehf. var stofnað 27. maí árið 1997. Stofnendur voru 6 einka- og atvinnuflugmenn sem höfðu áhuga á því að stunda flug bæði á sem ódýrastan og lýðræðislegastan hátt. Ákveðið var að hlutir í félaginu yrðu 14 og keypt var fyrsta flugvélin, TF-BOR sem var tæplega 40 ára gamall Piper Tri-Pacer. Hluturinn í félaginu var seldur á 100.000 krónur. Í desember 1997 var ákveðið að fjölga hlutunum úr 14 í 15.

Ljóst var að formið sem lagt var af stað með í upphafi gekk upp og fóru menn að spá í spilin varðandi stækkun á félaginu. Í apríl 1998 var samþykkt að fjölga hlutunum í 26 og keypt var vél númer 2, sem var af Robin gerð og hét TF-ROB. Fljótlega var félögum fjölgað eina ferðina enn í 30 manns. Í mars 1999 keypti félagið fyrstu Socata vélina sína, TF-BRO og var félögum þá fjölgað í 45. Næsta stækkun átti sér svo stað þegar TF-TBX var keypt og kom hún til landsins í lok janúar 2000. Í júní 2000 varð félagið fyrir því óhappi að TF-ROB eyðilagðist í flugtaki á Reykjavíkurflugvelli. Sem betur fór sluppu 2 Geirfuglar með skrámur í því slysi. Þar með átti félagið einungis 3 flugvélar.

     Fyrstu þrjár vélar félagsins samankomnar í heimsókn Félags íslenskra einkaflugmanna til Keflavíkur

Í árslok 2000 var TF-ICE keypt sem var fyrsta Cessna C-150 Geirfugls og var hún tekin rækilega í gegn og var í toppstandi á eftir. Um vorið 2001 kom sú róttæka hugmynd að fjárfesta í nýlegri flugvél og varð það úr á endanum að keypt var 3 ára gömul Socata TB-200XL og fékk hún einkennisstafina TF-MAX. Vorið 2003 var síðan TF-BRO settur upp í 3 ára gamla Socata TB-10 sem fékk einkennisstafina TF-LMB. Árið 2004 var svo TF-TWO sem er Cessna C-150L keypt í flotann.  Síðar eða árið 2006 bættist TF-ISE af gerðinni C-172N við ásamt TF-OND sem var af gerðinni Cessna C-152 og sama ár var TF-TWO seld.  2007 eyðilagðist TF-OND og voru keyptar 2 nýjar vélar í stað hennar og TF-ICE, sem eru af gerðinni Diamond DA-20 Eclipse árgerð 2004 og 2007. Stærsta fjárfesting félagsins varð þegar félagið keypti Svalt Loft ehf. sem á Fluggarða 25 í Reykjavík, en við það eignaðist félagið 500 fm flugskýli í Fluggörðum, þar er öll aðstaða félagsins og 5 vélar geymdar.  TF-FGC, þriðja Diamond vélin, var svo keypt og komin í gagnið 2013.  Hún er árgerð 2006.

                     Margir gestir komu og skoðuðu félagið á 20 ára afmæli þess, 27. maí 2017

Nýjasti gripurinn í félaginu, og jafnframt nýjasta einkaflugvél landsins er svo Tecnam P2010 TF-TEN sem var keypt ný frá framleiðandanum á Ítalíu árið 2016.  Vélin er ekkert annað en bylting fyrir félagið þar sem nýjustu tækni í flugvélahönnun, útbúnaði og flugmælitækjum er að finna í "TENinu".  Þar að auki er henni flogið á bílabensíni sem er mun hagkvæmara og umhverfisvænna en 100LL Avgas flugvélabensínið.  Með kaupunum á TEN er félagið enn og aftur að standa í fararbroddi í rekstri flugvéla í almannaflugi á Íslandi.

                Tecnam P2010 vél félagsins, TF-TEN, við skýli 25 í Fluggörðum, Reykjavíkurflugvelli

Félagið vill stuðla að eflingu einkaflugs á Íslandi. Það er í lögum félagsins að flugvélar þess skuli taka þátt í sem flestum flugkomum og sýningum. Sérstaklega er tekið fram í lögum félagsins að vélar þess skuli staðsettar í Múlakoti um verslunarmannahelgar.  Sú regla hefur að mestu verið tekin upp einnig á árlegu flughátíðinni á Hellu, "Allt sem getur flogið", sem hófst fyrir mörgum árum með því að Geirfugl fór í útilegu á Hellu....

Félagið fagnar á árinu 2017 20 ára afmæli og það er bæði mikið gleðiefni og stolt sem fylgir því að hafa þjónustað og þjálfað yfir 1000 hluthafa og viðskiptavini á þessum 20 árum.  Það er augljóst að Geirfugl er að gera eitthvað rétt, og ætlar að halda því áfram um ókomna tíð með dyggum stuðningi hluthafa sinna og nemenda.

                              20 ára afmælismerki Geirfugls á einni af Diamond vélum félagsins

Framtíðarsýn félagsins er einföld. Hún er sú að félagið eignist fleiri og betri flugvélar svo félagar þess geti haft aðgang að traustum, skemmtilegum og hagkvæmum flugflota á samkeppnishæfu verði.  

 

Flugvélar sem áður voru í rekstri Flugfélagsins Geirfugls

Myndir: Baldur Sveinsson o.fl.